Gleðilegt nýtt ár!
Nýju ári fylgir einhver löngun til að hreinsa til og skipuleggja starfið framundan. Það hvort sem er starfið hjá Blek eða skipulag fjölskyldunnar. Eitt af því sem er ómissandi er nýtt og ferskt dagatal.

Dagatal Lindu Ólafsdóttur teiknara
Eftir Lindu Ólafsdóttur, teiknara

Ég náði mér í fallega dagatalið hennar Lindu Ólafsdóttur, ákaflega vandað og vel teiknað og með sérstaklega fallega handskrifaða stafagerð. Það ná ekki allir þessu “touch”-i.

Reyndar algjört stofustáss sem ég get ekki hugsað mér að krota inn á. Mér finnst ég nefnilega þurfi að skrifa hjá mér það sem er á döfinni – jafnvel það sem ég er þegar búin að skrifa í iCal.

Svo er annað dagatal frá Í boði náttúrunnar sem er mjöög fallegt en er frekar stórt og ekki mikið pláss til að skrifa á hverjum degi, dásamlega fallegt svona í upphafi árs en ég er ekki viss með ástandið þegar líður á árið.

Ég leitaði því í svolítinn tíma (ca hálfan desember) að öðru dagatali sem uppfyllti hinar ítrustu kröfur mínar en fann ekki þetta alveg fullkomna, svo ég ákvað að eyða smá kvöldstund í að setja það upp sjálf. Mig langaði nefnilega til að hafa gott pláss til að skrifa við hvern dag, hafa vikunúmer inni á plagginu og setja helstu dagsetningar (bóndadaginn og öskudaginn t.d.) inn á dagatalið.

Dagatal Blek 2016

Og afraksturinn er hér, A4 blað fyrir hvern mánuð þar sem dagarnir eru í dálkum, vikunúmerin eru handhæg (kynntist því í skólanum í Danmörku hvað vikunúmer eru mikil skipulags-snilld) svolítill textareitur fylgir hverjum degi – og helstu frídagar eru merktir inn á. Helgarnar eru neðst og vikan byrjar efst – ekki vinstri hægri eins og maður á að venjast. Í kaupbæti er svo lítil hvetjandi setning sem fylgir hverjum mánuði.

Það er líka svart/hvítt sem þýðir að þú getur skreytt það eins og þú vilt, getur blóma-mynstrað það í drasl ef það er þitt thing og notað litríka penna til að leggja áherslu á viðburði – etv getur hver fjölskyldumeðlimur haft sinn lit til að auðvelda yfirsýn.

Auðvitað máttu grípa þér eintak, sæktu PDF skjalið og prentaðu það út, nældu þér í klemmu af uppáhalds tegund og hengdu upp eða smelltu því í myndaramma annaðhvort með blöðin ofan á glerinu eða undir (og þá er hægt að skrifa á glerið með töflutúss). Njóttu og nýttu! 🙂